Þá skal ég muna þér Kinnhestinn frumsýning 2.september!
Verkið “Þá skal ég muna þér Kinnhestinn” verður frumsýnt fimmtudaginn 2.september á vegum Reykjavík Dance festival. Þetta er í fyrsta sinn sem dansfélagið Krummi kemur opinberlega fram en einungis tvær sýningar verða á verkinu þann 2 og 3 september.
Dansfélagið Krummi samanstendur af dönsurunum/danshöfundunum Katrínu Gunnarsdóttur, Sögu Sigurðardóttur, Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur. Verkið er innblásið af kvenskörungum Íslendingasagnanna en sérstaklega er einblínt á þær Bergþóru, Hallgerði, Helgu fögru og Egil Skallagrímsson sem var rangskrifaður í íslendingasögunum þar sem hann var í raun kona. Þjóðsögur og samband manns við náttúruna fléttast saman við íslenskar klisjur sem tengjast kvenhetjum. Ólafur Jósepsson/Stafrænn Hákon semur tónlistina við verkið en Ingibjörg Sigurjónsdóttir gerir leikmynd og myndbandsverk. Búningar eru í höndum Nínu Óskarsdóttur.
Verkið er sýnt í Norðurpólnum 2 og 3 september kl 20:00 og deilir kvöldi með verki Ólafar Ingólfsdóttur. Miðasala er í síma 857-7455 eða á miði.is