Frábærir dómar, þrjár og hálf stjarna af 4! á pressan.is
úrdráttur úr dómi Bryndísar Schram af http://www.pressan.is 10. mar. 2011 – 18:55
“White for Decay eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur var annað verkið á efnisskránni. Svona eftir á finnst mér, að það hafi heillað mest. Það er byggt á fréttagreinum úr Öldinni okkar á árunum 1939 – 51, fjallar um seinni heimsstyrjöldina og þær skelfingar, sem fylgdu í kjölfarið. Sigríði Soffíu er greinilega ýmislegt til lista lagt, því að hún fæst líka við kvikmyndagerð og hefur stundað nám í sirkusdansi. Myndlist er henni ofarlega í huga. Allt þetta endurspeglast í verkinu, sem tekur hálfa klukkustund og er hrundið áfram af seiðandi, en dramatísku tónverki Jóhannesar Friðgeirs Jóhannssonar. Flott samspil milli tónskálds og dansahöfundar.
Sigríður Soffía er sjálf glæsileg í aðalhlutverkinu á móti þremur herramönnum, þeim Ásgeiri Helga Magnússyni, Cameron Corbett og Hannesi Þór Egilssyni. Steppdansinn í upphafi er frábært atriði, sem eitt og sér er gott teater. Cameron Corbett er greinilega ekki allur þar sem hann er séður og virðist vera leiðandi í hópnum. Hannes og Ásgeir Helgi láta ekki sitt etir liggja, og öll fjögur sýna þau ótrúlega tækni og flott samspil í seinni hlutanum, sem flæðir eins og stríð elfur um sviðið og fjarar síðan smám saman út. Áhrifamikið verk, sem hefði kannski orðið ennþá áhrifameira með því að stytta það ögn.”
Sjáið dóminn í heild: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/bryndis-schram-skrifar-um-verk-islenska-dansflokksins-sinnum-thrir-allt-a-rettri-leid